Skilmálar fyrir Þjónustugátt Landsbankans
Landsbankinn hf. | Nr. 1534-01 | Febrúar 2019
1. Almennt um Þjónustugátt Landsbankans
Skilmálar þessir gilda milli Landsbankans hf. (hér eftir „Landsbankinn“ eða „bankinn“) og notanda um Þjónustugátt Landsbankans (hér eftir „Þjónustugátt“). Notandi er sá sem skráir sig í Þjónustugátt. Notandi getur verið einstaklingur eða lögaðili. Þjónustugátt skiptist í þjónustuskil (e. application programming interface eða API) og umsýslukerfi (e. developer portal). Bankinn er eigandi Þjónustugáttar, þ. á m. alls efnis og upplýsinga í Þjónustugátt, og hugbúnaðar sem Þjónustugátt byggist á. Notandi skráir hugbúnaðarlausn (e. app) og sækir um aðgang að þjónustuskilum í umsýslukerfi. Þjónustuskil kunna að vera aðgengileg í prófunarumhverfi (e. sandbox) og/eða raunumhverfi (e. production). Prófunarumhverfi er ætlað til prófana á hugbúnaðarlausn en í raunumhverfi er hugbúnaðarlausn virkjuð til notkunar.
Með því að stofna aðgang að og/eða nota Þjónustugátt samþykkir notandi að hlíta þessum skilmálum í hvívetna. Um notkun á Þjónustugátt gilda jafnframt eftir atvikum Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans, sérskilmálar og reglur bankans. Fyrir hver þjónustuskil kunna að gilda sérstakar notkunarreglur sem notandi gengst undir þegar hann hefur notkun á viðkomandi þjónustuskilum. Notanda ber að kynna sér þær notkunarreglur sem gilda um þjónustuskil.
2. Persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga
Bankinn vinnur persónuupplýsingar um nafn, netfang og land sem notandi veitir í tengslum við stofnun aðgangs að Þjónustugátt. Bankinn sendir notanda upplýsingar og tilkynningar vegna Þjónustugáttar á netfang notanda. Bankinn hefur samband við notanda með tölvupósti vegna tilkynninga um t.d. rekstrartruflanir eða viðhald á Þjónustugátt. Bankinn vinnur persónuupplýsingar um IP-tölur notanda. Bankinn notar vefkökur til að m.a. vista stillingar notanda, vinna tölfræðilegar upplýsingar, greina umferð um Þjónustugátt, stuðla að virkni, tryggja öryggi og hafa eftirlit með að notkun Þjónustugáttar sé til samræmis við lög, skilmála og reglur bankans. Um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga gilda Almennir viðskiptaskilmálar Landsbankans, Persónuverndarstefna Landsbankans og eftir atvikum sérákvæði í notkunarreglum sem gilda um þjónustuskil.
3. Notkun og ábyrgð
Notandi stofnar aðgang að Þjónustugátt með því að velja sér notandanafn og fær þá sendar leiðbeiningar til að virkja aðganginn á uppgefið netfang. Í kjölfarið velur notandi sér lykilorð og er þar með orðinn virkur notandi í Þjónustugátt. Við skráningu hugbúnaðarlausnar í umsýslukerfi fær notandi úthlutaðan aðgangslykil (e. consumer key og/eða consumer secret) sjálfkrafa eða eftir atvikum að loknu samþykktarferli hjá bankanum. Notandi notar aðgangslykilinn í skráðri hugbúnaðarlausn til að eiga samskipti við valið umhverfi í þjónustuskilum. Notandi staðfestir að hann noti sjálfur þann aðgang sem hann hefur stofnað. Öll notkun á Þjónustugátt takmarkast við þær aðgerðir sem eðlilegar og löglegar geta talist og þær upplýsingar og þá þjónustu/virkni sem í boði er á hverjum tíma. Bankinn áskilur sér rétt til að ákveða einhliða þá þjónustu/virkni sem í boði er í Þjónustugátt, sem og að fella niður eða breyta þjónustunni/virkninni án fyrirvara. Bankinn er eigandi að öllu höfunda- og hugverkavernduðu efni í Þjónustugátt. Öll dreifing, fjölföldun eða endurútgáfa á höfunda- eða hugverkavörðu efni bankans er með öllu óheimil. Öll notkun á merki eða nafni Landsbankans er háð fyrirfram veittu samþykki bankans.
Bankinn ber enga ábyrgð á beinu eða afleiddu tjóni sem breytingar bankans á Þjónustugátt eða þjónustu/virkni í Þjónustugátt kunna að valda notanda eða þriðja aðila. Bankinn ber enga ábyrgð á tjóni sem notandi eða þriðji aðili verður fyrir í tengslum við notkun notanda á Þjónustugátt eða notkun þriðja aðila á skráðri hugbúnaðarlausn notanda. Bankinn ber ekki ábyrgð á tjóni sem notandi eða þriðji aðili verður fyrir hafi notandi veitt þriðja aðila aðgang að Þjónustugátt. Upplýsingar í prófunarumhverfi eru prófunargögn og birtar án ábyrgðar bankans. Bankinn ber ekki ábyrgð á aldri eða gæðum prófunargagna.
Notanda ber að gera varúðarráðstafanir og gæta fyllsta trúnaðar til að tryggja aðgangslykla og aðgangsupplýsingar sem hann notar til innskráningar í Þjónustugátt. Notanda er óheimilt að láta öðrum í té aðgangsupplýsingar eða aðgangslykla. Varðveiti notandi ekki upplýsingarnar í samræmi við framangreint eða með öðrum öruggum hætti telst það vera stórfellt gáleysi af hans hálfu. Notanda ber jafnframt að gæta þess að óviðkomandi aðili komist ekki yfir tæki sem hann notar til innskráningar í Þjónustugátt. Notandi ber ábyrgð á að tryggja fullnægjandi öryggi tölvubúnaðar síns þegar efni er niðurhalað eða sótt úr Þjónustugátt. Hafi verið átt við tækið með þeim hætti að öryggi þess hafi á einhvern hátt verið ógnað, t.d. með uppsetningu óöruggra forrita, er notkun Þjónustugáttar á tækinu ekki örugg og því óheimil með öllu. Verði notandi þess áskynja að óviðkomandi aðili hafi fengið vitneskju um aðgangsupplýsingar og/eða aðgangslykla skal notandi tafarlaust tilkynna slíkt til bankans.
Notanda ber að fara eftir lögum, skilmálum, notkunarreglum og leiðbeiningum bankans um Þjónustugátt. Notandi er ábyrgur fyrir öllum aðgerðum og notkun sem fram fer á hans aðgangi. Sama gildir um notkun þriðja aðila á Þjónustugátt hafi hann komist yfir aðgangsupplýsingar eða aðgangslykla notanda. Notanda er óheimilt að breyta öðrum gögnum en sínum eigin. Eingöngu má nota þær aðgerðir sem Þjónustugátt veitir í gegnum viðmót eða skjöluð þjónustuskil. Notanda er óheimilt að (a) villa á sér heimildir við notkun á Þjónustugátt, (b) senda, dreifa eða upphala gögnum eða öðru efni í Þjónustugátt sem kann að innihalda vírusa eða annars konar efni sem kann að hafa áhrif á virkni búnaðar eða tækja annarra notenda, og/eða (c) birta, auglýsa eða miðla ólögmætu eða óviðeigandi efni í gegnum Þjónustugátt. Eftir að notandi hefur skráð sig inn í Þjónustugátt ber hann ábyrgð á og er bundinn af öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru í Þjónustugátt. Bankinn ber ekki ábyrgð á því efni sem notandi miðlar inn í Þjónustugátt. Notandi staðfestir að þær upplýsingar sem hann skráir í Þjónustugátt séu réttar. Notanda er óheimilt að setja inn veftengil (e. hyperlink) á annað vefsvæði eða aðra vefsíðu sem vísar á Þjónustugátt (eða annað efni sem þar er að finna, s.s. vefsíður, myndir, myndbönd, hljóðupptökur, myndefni, texta, kóða, forrit eða annað efni) eða spegla efni af Þjónustugátt inn á annan vefþjón án þess að geta skýrra heimilda. Bankinn setur ákveðin takmörk á notkun notanda á Þjónustugátt sem nánar er lýst í notkunarreglum sem gilda um viðeigandi þjónustuskil.
Bankinn ber ekki ábyrgð á tjóni notanda eða þriðja aðila vegna (a) upplýsinga, aðgangslykla eða hugbúnaða sem tengjast Þjónustugátt, (b) upplýsinga frá Þjónustugátt sem eru ekki réttar, áreiðanlegar eða nýjar, (c) seljanleika, lögmæti, virkni eða notkunarmöguleika hugbúnaðarlausnar notanda, (d) búnaðar sem notandi eða þriðji aðili leggur til sem virkar ekki sem skyldi, (e) misnotkunar notanda á heimildum til aðgerða í Þjónustugátt, (f) atvika sem tengjast þjónustu þriðja aðila eða sem notandi ber sjálfur ábyrgð á samkvæmt skilmálum þessum, (g) fyrirvaralausrar lokunar Þjónustugáttar, t.d. vegna bilana í hug- eða vélbúnaði bankans, uppfærslu skráa, breytinga á kerfi, eða af öðrum ástæðum, (h) rekstrartaps notanda eða þriðja aðila eða annars afleidds tjóns hvort sem rekja má tjónið til galla, skemmda eða eyðileggingar á Þjónustugátt eða til annarra atvika, (i) atvika sem stafa af lagaboði, aðgerðum stjórnvalda eða óviðráðanlegum aðstæðum (force majeure), s.s. náttúruhamförum, styrjöldum, hryðjuverkum, verkföllum, lokun landamæra, rafmagnstruflunum, rafmagnsleysi eða öðrum rekstrartruflunum, truflunum í uppgjörskerfi, símkerfi eða öðrum boðleiðum, eða öðrum sambærilegum atvikum. Bankinn ber jafnframt ekki ábyrgð á óþægindum, kostnaði, missi fjárfestingartækifæra eða öðru fjártjóni, beinu eða óbeinu sem stafar af lokun, bilun, truflun eða annarri röskun á Þjónustugátt.
4. Lokaákvæði
Bankanum er heimilt, fyrirvaralaust og án tilkynningar, að loka aðgangi notanda að Þjónustugátt eða takmarka notkun notanda á Þjónustugátt, í heild eða að hluta, tímabundið eða varanlega (a) ef grunur leikur á að um óheimila eða sviksamlega notkun Þjónustugáttar eða brot á lögum, skilmálum, notkunarreglum eða leiðbeiningum bankans sé að ræða, (b) vegna uppfærslu skráa, kerfisbreytinga eða annarra tæknilegra ástæðna eða öryggisástæðna eða (c) vegna annarra málefnalegra ástæðna. Notanda er gert viðvart eins fljótt og kostur er. Bankinn áskilur sér rétt til að hafa eftirlit með notkun á Þjónustugátt til að tryggja öryggi og gæta eftirlits með að notkun Þjónustugáttar sé í samræmi við lög, skilmála og reglur bankans og tilkynnir viðeigandi eftirlitsaðilum og lögbærum yfirvöldum um ólögmæta háttsemi í Þjónustugátt.
Aðgangur að Þjónustugátt er uppsegjanlegur af beggja hálfu án fyrirvara. Bankinn getur hvenær sem er hætt að bjóða upp á Þjónustugátt eða gert breytingar á skilmálum þessum einhliða og án fyrirvara. Breytingar á skilmálunum eru tilkynntar á varanlegum miðli með almennri tilkynningu á vefsvæði bankans eða í Þjónustugátt.
Skilmálar þessir gilda frá og með 20.02.2019.